Loftslagsmarkmið

HS Orka hefur einsett sér að draga úr loftslagsáhrifum frá starfsemi sinni og setti sér árið 2016 markmið til ársins 2030. Markmiðin voru að draga úr losun koltvísýringsígilda á hverja kWst um 40% fyrir árið 2030, miðað við 2014. Aðgerðir til þess að ná þessu markmiði eru að draga úr eigin orkunotkun, skapa verðmæti úr koltvísýringsstraumum, endurheimta gróðurþekju og auka hlutfall vistvænni bifreiða í bílaflota HS Orku. Einnig ætlar HS Orka að auka hlutfall endurvinnanlegs sorps í 95% fyrir árið 2030. Árið 2016 og upphaf 2017 einkenndist af aukinni myndun á óendurunnu sorpi, sem rekja má til flutnings höfuðstöðva HS Orku í húsnæðið Eldborg í Svartsengi. Í upphafi árs sendi fyrirtækið gám með sorpi, sem kom úr lokaframkvæmdunum í Eldborg, til greiningar og flokkunar. Greiningin leiddi í ljós að 60% sorpsins reyndust endurvinnanleg. Það er því mikilvægt að læra af reynslunni og leggja meiri þunga á skynsamlega förgun úrgangs.

Hlutfall óendurvinnanlegs sorps

Bein losun frá virkjunum fyrirtækisins telur mest þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda og því má ekki sjá marktækan mun þegar aðrar aðgerðir í átt að minni losun eru framkvæmdar. Það skal þó ekki að þeim vegið. Fyrstu ráðstafanir voru gerðar til að gera endurheimt gróðurþekju að hluta af öllum nýframkvæmdum og markviss vinna við að sparperuvæða húsnæði HS Orku hófst.

Losun g CO₂-ígilda á kWst

Tollstjóri flokkar vélknúin ökutæki eftir skráðri losun koltvísýrings í flokka A til J, þar sem bílar í flokki A losa minnst af koltvísýringi, eða 0-80 g á hvern kílómetra. Á árinu 2017 voru 17% bifreiða fyrirtækisins í tollflokki A. Það er 10% hækkun frá árinu áður. Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hvað hæst og því er það náttúruleg þróun að hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum aukist með framþróun á tvinn- og rafmagnsbílum.

Tollflokkar bílaflota HS Orku