Þróunarverkefni

Brúarvirkjun

Rennslisvirkjunin Brúarvirkjun, í efri hluta Tungufljóts í Bláskógabyggð, hefur verið í þróun hjá HS Orku síðustu ár í samvinnu við hönnuði og verkfræðistofuna Mannvit hf. Virkjunin er 9,9 MW. Á árinu 2017 var unnið að áframhaldandi undirbúningsvinnu og nokkrum mikilvægum áföngum náð. Staðið hefur verið við öll sett skilyrði og eru framkvæmdir áætlaðar á fyrri hluti ársins 2018.

Í upphafi árs var unnið að útboðshönnun verkefnisins en fimm útboðspakkar; mannvirkjagerð, eftirlit með framkvæmdum, vélarkaup, fallpípa og lokur og stálsmíði fóru öll í útboð á árinu. Útboðsgögnin voru gerð aðgengileg með rafrænum hætti í fyrsta skipti á okkar vegum. Hófust samningaviðræður við bjóðendur síðla árs.

Í apríl veitti Orkustofnun HS Orku virkjunarleyfi til að reisa og reka virkjunina og í október var undirritaður samningur við RARIK um að virkjunin tengist tengivirki dreifiveitunnar í Reykholti með 33 kW rafstrengslögn sem verður hluti af dreifikerfi Rarik á svæðinu.

Áfram var unnið að rannsóknum til að uppfylla skilyrði í áliti Skipulagsstofnunnar á umhverfismati Brúarvirkjunar. Samið var við Náttúrufræðistofnun Íslands, sem skilaði niðurstöðum sama ár, um að rannsaka bæði straumandavarp í Tungufljóti og botngróður og flóru í birkiskógi í fyrirhuguðu lónstæði Brúarvirkjunar. Einnig var samið við Skógrækt ríkisins um endurheimt birkiskógar á um 10 hektara svæði ofan Haukadals, á svæði þar sem nú vex lúpína, og endurheimt votlendis í landi Mosfells í Grímsnesi.

Eftir greiningu á áhrifum flóðs í ánni voru stíflugarðar við Sandvatn skoðaðir m.t.t. ástands. Reyndust þeir traustir.

Brúará
Brúará

Framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum var gefið í byrjun sumars og hófust þær í ágúst 2017. Þær fólust í gerð þjónustuvegar með fram lagnastæði þrýstipípu, plans undir vinnubúðir, framræslu jarðvökva frá verksvæði og uppsetningu vinnubúða HS Orku. Nesey ehf. annaðist verkið og lauk því í september. Önnuðust Stólpi Gámar ehf. uppsetningu vinnubúða, RARIK afhendingu vinnurafmagns og Bláskógaveita sá fyrir neysluvatni.

Gengið var frá skipulagsbreytingum fyrir Brúarvirkjun snemma árs með staðfestingu á breytingu aðalskipulags Bláskógabyggðar og sérstöku deiliskipulagi fyrir mannvirki virkjunarinnar, stöðvarhús, stíflu og veg, og sérstöku deiliskipulagi fyrir efnistöku- og haugsetningarsvæði. Þá veitti Fiskistofa heimild til framkvæmda að settum skilyrðum.

Sveitarfélagið Bláskógabyggð auglýsti framkvæmdaleyfi í lok október. Fram komu tvær kærur á veitingu framkvæmdaleyfisins. Voru kærendur Kayakklúbburinn (Reykjavík) og Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd sameiginlega. Í lok árs var kærum andmælt og þess krafist að þeim yrði vísað frá eða til vara að kröfu kærenda, að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, yrði hafnað. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist þegar úrskurður fellur um gildi framkvæmdaleyfis.

Svartsengi og Eldvörp

Sótt var um nýtt nýtingarleyfi fyrir jarðhitasvæðið í Svartsengi-Eldvörpum og um leið breytingu á virkjunarleyfi fyrir virkjunina við Svartsengi. Til grundvallar voru lagðir fram líkanútreikningar verkfræðistofunnar Vatnsskila yfir vinnslu og niðurdælingu næstu þrjátíu ár og áhrif metin á niðurdrátt vatnsborðs í Svartsengi og Eldvörpum.

Orkustofnun tók á móti umsögnum um leyfisveitingar, gerði breytingar í samræmi við athugasemdir og gaf út nýtt nýtingarleyfi fyrir sameiginlegt jarðhitasvæði Svartsengis og Eldvarpa og virkjunarleyfi fyrir rekstur 75 MW virkjunar í Svartsengi. Áður hafði virkjunin einungis haft framleiðsluleyfi fyrir 560 GWh á ári.

Vanda verður vel til nýtingar jarðhita á nýtingarsvæðinu og fylgjast vel með þróun vinnslunnar í Svartsengi, þá sérstaklega gufupúðans í efri lögum jarðhitakerfisins. Er vel fylgst með þróun í jarðhitakerfinu samhliða gufuvinnslunni fyrir fram.

Undirbúningsframkvæmdir hófust í Eldvörpum í ár með styrkingu núverandi vegar og gerð borplans fyrir fyrirhugaða rannsóknarborun á svæðinu árið 2018 þegar einnig verður skoðað með hvaða hætti best verður staðið að gufuvinnslu frá holum vestast á svæðinu.

Að beiðni HS Orku gerði ÍSOR úttekt á möguleikum þess að vinna ferskvatn frá svæði austan Grindavíkurvegar og sunnan Reykjanesbrautar sem varavatnsból fyrir vinnslu á ferskvatni. Vatnsból á slíku svæði væri ekki á áhrifasvæði hugsanlegrar mengunar vegna alvarlegra mengunarslysa á þeim vegum, t.d. ef hættulegir vökvar berast í jarðveg og áfram niður í jarðlög. Næstu skref er að finna álitlega staði til vinnslunnar og borun könnunarholu.

Reykjanes

Byggingu 30 MW lágþrýstivirkjunar, REY-4, til að bæta nýtingu Reykjanesvirkjunar var frestað seint árið 2016 vegna minnkandi gufuvinnslu á svæðinu. Unnið hefur verið markvisst í að endurheimta gufuvinnsluna og ná fram fullum afköstum sem komið geta áformum um lágþrýstivirkjun aftur af stað. Í lok árs var núverandi virkjun nálægt fullum afköstum á ný og því verður haldið áfram með undirbúning að byggingu REY-4 árið 2018.

Unnið var að skipulagsbreytingum á skipulögðum lagnaleiðum og borteigum fyrir fyrirhugaðar vinnsluboranir á næstu árum.

Matsáætlun fyrir meðferð virks úrgangs var samþykkt af Skipulagsstofnun. Unnið var að gerð frummatsskýrslu en óvissa um endanlegar förgunarleiðir tefur framvindu.

Reykjanesvirkjun
Reykjanesvirkjun

Stóra-Sandvík

Ætlað jarðhitasvæði við Stóru-Sandvík liggur að jarðhitasvæðinu á Reykjanesi og eru áform þar um virkjun jarðhita í nýtingarflokki rammaáætlunar. Rannsóknir á svæðinu, aðallega viðnámsmælingar, hafa verið gerðar samhliða örðum yfirborðsrannsóknum í tengslum við jarðhitanýtingu á svæði Reykjanesvirkjunar og í Eldvörpum-Svartsengi. Þannig hefur öðlast þó nokkur þekking á svæðinu og næstu skref í frekari rannsóknum er borun rannsóknarholu.

Í ár var öllum rannsóknargögnum safnað saman og ÍSOR fengið til að draga fram heildstæða mynd af möguleikum til vinnslu jarðhita á svæðinu og staðsetja þar fyrstu rannsóknarholu. Næst er því að ákveða hvort og hvernig rannsóknarholu HS Orka muni bora á svæðinu. HS Orka er með bæði rannsóknarleyfi og samning við landeiganda um rannsóknir og nýtingu, telji aðilar hagkvæmt að ráðast í vinnslu jarðhita.

Vindorka

Sótt var um leyfi skipulagsnefndar Grindavíkur til að reisa allt að 80 metra hátt rannsóknarmastur í landi Staðar á Reykjanesi og/eða á svæði nálægt Stapafelli. Skipulagsnefnd hafnaði beiðninni þar sem ekki væri búið að marka stefnu um nýtingu vinds til rafmagnsframleiðslu á skipulagssvæði Grindavíkur. Unnið er að stefnumörkuninni í yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags og verður í tillögu að nýju aðalskipulagi tekin afstaða til vindorkunýtingar og staðarvali fyrir mælingar og hugsanlegrar uppbyggingar.Gert er ráð fyrir að tillaga að nýju aðalskipulagi verði auglýst vorið 2018.

VesturVerk

Á vegum VesturVerks var unnið áfram að undirbúningi fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í Árneshreppi sem er einn fárra virkjunarkosta vatnsafls í nýtingarflokki núgildandi rammaáætlunar. Álitsgerð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum virkjunar Hvalár lá fyrir snemma árs og mun það verða haft til hliðsjónar við frekari undirbúning virkjunar.

Gerðar voru breytingar á aðalskipulagi og lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi til að gera mögulegar nauðsynlegar rannsóknir við fyrirhuguð stíflustæði, lagningu þjónustuvega o.fl. Voru skipulagsáætlanir til samþykktar hjá sveitarfélaginu og þurfa þær síðan að fá staðfestingu Skipulagsstofnunar, væntanlega árið 2018.

Áfram var unnið að undirbúningi tengingar við flutningskerfi Landsnets bæði hvað varðar lagnaleið og tengistað. Er litið á tenginguna sem upphaf að frekari eflingu flutnings- og dreifikerfis á Vestfjarðakjálkanum sem gæti stuðlað að aukinni nýtingu vatnsafls, styrkingu afhendingaröryggis, bættum raforkugæðum og uppbyggingu atvinnulífs.