Ávarp forstjóra

Rekstur HS Orku gekk mjög vel á árinu 2017. Rekstur félagsins var um margt heldur óvenjulegur á árinu, eins og hér verður rakið.

Haustið 2016 dró úr framleiðslu Reykjanesvirkjunar og tókst með miklum ágætum að vinna þá minnkun til baka á árinu 2017 og gott betur. Framleiðsla Reykjanesvirkjunar var í lok ársins meiri en verið hafði frá árinu 2015. Starfsmenn og sérfræðingar HS Orku ásamt ráðgjöfum unnu þrekvirki við að auka framleiðsluna og snúa við þeirri neikvæðu þróun sem átti sér stað á árinu 2016. Ber þessi árangur gæðum orkuveranna og færni þeirra starfsmanna sem þau reka gott vitni, en rekstur jarðhitavirkjana er mjög flókin starfsemi. Í byrjun árs 2018 jókst framleiðsla Reykjanesvirkjunar enn frekar með tengingu nýrrar borholu, RN-35. Nálgast Reykjanesvirkjun nú full afköst á nýjan leik.

Ávarp forstjóra
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku

Framleiðsla í Svartsengi hefur enn fremur verið aukin, eftir að hola SV-26 var tengd við orkuverið í lok árs 2017.

Stórt skref var stigið með nýrri fjármögnun félagsins á árinu 2017. Er þar um að ræða samning við Arion banka um endurfjármögnun á eldri skuldum félagsins við erlenda banka, auk fjármögnunar á nýframkvæmdum tengdum jarðhitaverkefnum á Reykjanesskaga og Brúarvirkjun í Biskupstungum. Þessi samningur er fyrsta stóra fjármögnun félagsins með íslenskum banka og er mikið fagnaðarefni.

Árið 2017 var fyrsta heila starfsár félagsins í nýjum höfuðstöðvum í Eldborg í Svartsengi, við hlið orkuversins. Þessi breyting hefur haft mjög góð áhrif á starfsemi fyrirtækisins og samskipti milli eininga og starfsmanna. Erum við afar stolt og ánægð með þessa breytingu, sem er fyrirtækinu til framdráttar.

Í janúar 2017 lauk borun djúpborunarholunnar IDDP-2 á Reykjanesi, sem er umfangsmikið, flókið og kostnaðarsamt verkefni, í samstarfi fjölmargra aðila. Framkvæmd verksins tókst með miklum ágætum og lauk borun holunnar á 4.650 m dýpi. Öll helstu markmið verkefnisins náðust og gefur djúpa holan miklar væntingar um að unnt verði að vinna orkuríkan vökva úr djúplægu og mjög heitu jarðhitakerfi á Reykjanesi, mun dýpra en núverandi vinnsla nýtir. Verkið er rannsóknar- og þróunarverkefni, þar sem verið er að feta nýja slóð í jarðhitanýtingu. Vonir standa til að niðurstöður úr vinnsluprófunum nýju holunnar liggi fyrir á þessu ári eða því næsta.

hs_orka_hadegisfundur_web-21.jpg
Húsfyllir var í Gamla bíó þegar borlokum IDDP2 var fagnað

HS Orka hefur aukið raforkusölu á smásölumarkaði og til stærri viðskiptavina með góðum árangri og er raforkusala nú meiri en nokkru sinni fyrr. Metur HS Orka jákvæð viðbrögð og traust viðskiptavina mikils. HS Orka hlaut ánægjuvogina í flokki orkufyrirtæka fyrir árið 2017, í tólfta skiptið á 14 árum. Það er í senn fagnaðarefni og mikil hvatning til áframahaldandi framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini.

Framleiðsla HS Orku var nánast samkvæmt áætlun ársins 2017. Heildarraforkuvinnsla var 1.151 GWh sem var um 0,5% undir áætlun ársins og um 3,2% undir framleiðslu ársins 2016.

Rekstrartekjur félagsins á árinu voru 7,5 milljarðar króna, samanborið við 7,1 milljarða króna árið 2016. Aukning er um 6 % á milli ára sem skýrist annars vegar af auknum tekjum vegna raforkusölu til álbræðslu, en álverð hækkaði nokkuð á árinu, og hins vegar aukinni sölu til gagnavera. Tekjur af raforkusölu voru 84,0% af tekjum félagsins árið 2017.

EBITDA ársins er 2,2 milljarðar króna samanborið við 2,0 milljarða króna árið 2016. Helstu skýringar á aukningu milli ára eru aukin raforkuframleiðsla á Reykjanesi, hækkandi álverð og aukning í smásölu á rafmagni.

HS Orka hefur áfram unnið að aukinni orkuvinnslu í jarðvarmaverkefnum á Reykjanes; á Reykjanesi, í Eldvörpum og í Krýsuvík. Verkefni þessi, sem eru mislangt á veg komin, eru afar tímafrek í undirbúningi og hefur meginvinnan verið á sviði auðlindasamninga, leyfisveitinga, grunnrannsókna og frumhönnunar. Jákvæð þróun vinnslu á Reykjanesi er mikið fagnaðarefni og eykur líkur á byggingu nýrrar 30 MW lágþrýstieiningar, Reykjanes 4, sem nýta mun jarðsjó sem fellur til við vinnslu núverandi orkuvers. Undirbúningsframkvæmdir við rannsóknarboranir í Eldvörpum eru hafnar.

HS Orka hefur enn fremur unnið að þróun nokkurra vatnsaflsverkefna. Lagt var aukið hlutafé í VesturVerk hf. á Ísafirði, vegna rannsókna við virkjunarkostina Hvalá í Ófeigsfirði (55 MW) og Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi (10 MW), auk annarra verkefna sem félagið vinnur að. Á HS Orka nú um 70% eignarhlut í VesturVerki.

Útboð fóru fram vegna byggingar Brúarvirkjunar (10 MW) í Tungufljóti í Bláskógabyggð og fjármögnun verkefnisins er lokið. Er ráðgert að hefja framkvæmdir við Brúarvirkjun sumarið 2018.

Auðlindagarðurinn, sem vakið hefur verðskuldaða athyli, hefur enn á ný undirstrikað sérstöðu sína. Á árinu 2017 hófst starfsemi í nýrri fiskeldisstöð Matorku í nágrenni Svartsengis. Gashreinsun og vinnsla á koltvísýringi í Svartsengi er nú í gangsetningu. Auk þess er unnið að undirbúningi á hreinsun og vinnslu á kísli á Reykjanesi og áform eru um nýja og áhugaverða verksmiðju Codlands á Reykjanesi, þar sem kollagen verður unnið úr fiskroði.

Fjárfestingar á árinu 2017 námu alls 1,8 milljörðum. Stærstu fjárfestingarverkefnin voru boranir á Reykjanesi, undirbúningsframkvæmdir vegna Brúarvirkjunar og Hvalárvirkjunar, og tengingar á borholum í Svartsengi og Reykjanesi.

Efnahagsreikningur félagsins hefur styrkst verulega á undanförnum árum og hafa skuldir fyrirtækisins farið hratt lækkandi. Það hefur rennt styrkum stoðum undir nýja frekari fjármögnun félagsins, til frekari sóknar.

HS Orka horfir fram á spennandi rekstrarár 2018 með traustum stoðum rekstrarins og upphafi framkvæmda við nýja framleiðslueiningu.

HS Orka mun eftir sem áður veita mikilvæga þjónustu til uppbyggingar samfélagsins, til smærri og stærri aðila, með sölu á sinni þjónustu.

Að endingu vil ég þakka starfsmönnum félagsins fyrir framúrskarandi störf og fórnfýsi við rekstur félagsins.