Djúpborun

Borun djúpborunarholu (IDDP-2) á Reykjanesi lauk 25. janúar 2017 á 4.650 m dýpi. Verkinu lauk með því að komið var fyrir grannri pípulögn (grönnum borstreng) niður alla holuna, niður á 4.585 m dýpi. Köldu vatni var síðan dælt niður undir botn í 5 mánuði og jafnframt frá yfirborði utan með pípunni. Þetta var gert til að freista þess að auka lekt holunnar með því að leyfa henni að hitna og kólna á víxl. Markmiðið er að gera holuna enn öflugri en hún leit út fyrir í lok borunar og jafnframt að kanna samband hennar við jarðhitakerfið ofan við, sem Reykjanesvirkjun nýtir. Pípulögnin var síðan fjarlægð í byrjun júlí 2017 og kom þá í ljós að neðstu pípurnar voru nokkuð tærðar vegna blöndunar við ofurheitan jarðhitavökva og jafnframt sáust óvæntar fóðringarskemmdir ofar, sem hindra þó ekki að halda vinnslutilraunum áfram. Nú er verið að undirbúa niðursetningu á ferilefni og jafnframt að undirbúa blástursprófanir sem reiknað er með að hefjist í lok árs 2018.

borkjarni
Borkjarni af 4.650 metra dýpi

Það sem kom mest á óvart við borun djúpu holunnar var að nær allt skolvatn (50-60 l/s) sem notað var við borunina tapaðist jafnharðan út í jarðlögin ásamt öllu bergsvarfi sem losað var. Þetta er gríðarlegt magn (um 5.000 tonn af vatni á sólarhring) og heildarmagn bergs sem losað var nam um 160 tonnum. Frekar hafði verið reiknað með að bergið neðan venjulegs vinnsludýpis (um 2,5 km) yrði fremur þétt og með takmarkaða vatnslekt, nema þá e.t.v. í afmörkuðum rásum sem verið var að leita að með djúpboruninni. Þessi mikla lekt kom því þægilega á óvart og stækkar jarðhitageyminn niður á við um a.m.k. 1 km. Þar er orkuinnihald jarðhitavökvans umtalsvert hærra vegna hærri hita og ávinningur af djúpborunartilrauninni er því ótvíræður hvað Reykjanesjarðhitakerfið varðar og trúlega mesti ávinningurinn til þessa. Vinnslutilraunir verða gerðar á árinu 2019 og fást þá skýrari línur í málin.