Ávarp stjórnarformanns

Árið 2017 var mjög gott ár fyrir HS Orku. Orkuframleiðsla fyrirtækisins jókst og okkur tókst að mestu leyti að vinna upp samdrátt í framleiðslu á Reykjanesi sem varð árinu 2016. Við gerðum samning við Arion banka um endurfjármögnun á erlendum lánum okkar og fjármögnun nýrra verkefna. Það er merkur áfangi að semja við íslenskan banka um fjármögnun. Efnahagsreikningurinn okkar er sterkur og sýndi 73% eiginfjárhlutfall í árslok. Framkvæmdastjórnin hefur staðið sig mjög vel og eru mörg þróunarverkefni vel á veg komin. Einn mikilvægasti áfangi ársins var að ljúka með góðum árangri borun djúpholunnar IDDP-2, sem boruð var á Reykjanesi.

Ávarp stjórnarformanns
Ross Beaty, stjórnarformaður HS Orku

Um mitt ár 2016 dró óvænt úr framleiðslu jarðvarma á Reykjanesi í kjölfar viðhaldsstopps. Við uppgötvuðum að ástæðuna mátti rekja til samdráttar í gufuframleiðslu svæðisins af völdum vatnsborðshækkunar í auðlindinni vegna niðurdælingar. Við drógum úr niðurdælingu og styrktum gufupúðann og þar með gufumyndun. Framleiðslan hefur aukist til muna síðustu mánuði, er að nálgast full afl og við reiknum með að ná aftur fullum afköstum á árinu 2018. Í Svartsengi hefur framleiðslan gengið einstaklega vel og raforkuframleiðsla jókst vegna tengingar nýrrar borholu. Framleiðsla á heitu vatni og öðrum auðlindastraumum hefur einnig gengið vel.

Fjárhagsáætlanir fyrir rekstur ársins stóðust þrátt fyrir erfitt ástand á Reykjanesi á fyrstu þremur ársfjórðungum. Tekjur af raforkusölu til áliðnaðarins jukust vegna hækkunar álverðs. Smásala á rafmagni er vaxandi og nýir mikilvægir viðskiptavinir hafa valið okkur til að sjá þeim fyrir raforku. Mikil aukning hefur orðið í raforkusölu til gagnavera.

Flutningur höfuðstöðvarnar í Svartsengi á árinu 2016 reyndist mikilvægt skref fyrir fyrirtækið til hagræðingar í rekstri og stjórnun.

Þó að HS Orka leggi kapp á halda eftir meirihluta sjóðstreymis frá rekstri til að greiða niður skuldir og veita fé til nýrra verkefna, voru 420 milljónir króna greiddar í arð til hluthafa árið 2017 en sömu fjárhæð fékk fyrirtækið í arðgreiðslu vegna 30% eignarhlutar síns í Bláa Lóninu. Á árinu 2017 fór rekstur Bláa Lónsins enn og aftur fram úr væntingum, bæði vegna aukinnar aðsóknar og framúrskarandi reksturs. Nú fer senn að ljúka framkvæmdum Bláa Lónsins við byggingu nýs lúxushótels og heilsulindar, sem verða tekin í notkun í vor.

Fyrsta vatnsaflsverkefnið okkar er núna komið á byggingarstig. Áætlað er að hin 10 MW Brúarvirkjun verði tekin í notkun í árslok 2019.

Í ágúst 2016 hófust boranir á IDDP-2 holunni á Reykjanesi í samstarfi við Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP). Helsti samstarfsaðili okkar í borverkefninu er norska fyrirtækið Statoil, en Jarðboranir sáu um borun holunnar. Boruninni lauk í janúar 2017 á 4.650 m dýpi. Fyrstu niðurstöður eru afar áhugaverðar og benda til mögulegs vinnslusvæðis undir núverandi vinnslusvæði á Reykjanesi. Hitastig hefur mælst vel yfir 400°C. Þetta árangursríka verkefni getur haft mjög jákvæð áhrif á starfsemi HS Orku sem og allan jarðvarmaiðnaðinn þegar fleiri tilraunir með holuna hafa verið gerðar á þessu ári og því næsta.

Auðlindagarðurinn heldur áfram að blómstra. Nýtt fiskeldi nálægt Svartsengi, sem Matorka á og rekur, hóf starfsemi á árinu 2017. Starfsfólk HS Orku telur um 60 manns en í Auðlindagarðinum vinna yfir 1.000 manns Við höfum lokið byggingu á gashreinsistöð í Svartsengi til að hreinsa H2S og CO2 úr gufunni sem orkuverið gefur frá sér. Um stórt skref er að ræða, bæði í umhverfislegu tilliti sem og fjárhagslegu, þar sem CO2 verður síðar selt sem ný vara frá orkuverinu í Svartsengi. Markmið okkar er halda áfram að þróa Auðlindagarðshugmyndina með því hugarfari að margir aðrir geti hagnast á því að nýta auðlindir okkar á sem besta mögulegan hátt, samfélaginu og umhverfinu til heilla. Við erum afar stolt af því að geta nýtt kosti jarðvarmans, framúrskarandi þekkingu starfsfólks okkar og fjármagn til að útvega viðskiptavinum okkar hreina orku.

Í febrúar 2018 eignaðist Innergex Renewable Energy Inc. öll hlutabréf í Alterra Power Corporation. Innergex er hreint orkufyrirtæki með höfuðstöðvar í Montreal, en það rekur vatns-, vind- og sólarorkustöðvar í Norður-Ameríku og Frakklandi og núna, gegnum okkur, hefur Ísland bæst í hópinn með jarðvarma. Við teljum að þessi breyting verði mjög jákvæð fyrir HS Orku þar sem meirihlutaeigandi er nú stærri og sterkari en áður. Innergex er skráð í kauphöllinni í Toronto (TSX:INE, sjá einnig Innergex.com).

Ég vil þakka öllu starfsfólki HS Orku, framkvæmdastjórum og stjórnendum fyrir þeirra mikla og óeigingjarna starf í þágu fyrirtækisins, þar sem áskoranir hafa oft á tíðum verið miklar. Einnig vil ég þakka hluthöfum í HS Orku, Alterra Power Corp., Jarðvarma og Örk, sem munu halda sínu samstarfi áfram, með góðri samvinnu og velvilja í rekstri fyrirtækisins. Mig langar líka sérstaklega að þakka þeim stjórnendum Alterra sem hafa starfað með stjórn og stjórnendum hjá HS Orku og eru núna að kveðja fyrirtækið. Það er von mín að árið 2018 verði enn eitt árið sem einkennist af stöðugleika og jákvæðri niðurstöðu fyrir fyrirtækið.