Öryggismál

HS Orka hefur ætíð leitast við að vera slysalaus vinnustaður og lykillinn að því eru fyrirbyggjandi aðgerðir. Einn liður í því er að koma auga á atriði sem gætu valdið óhöppum og slysum og skrá þau. Farið var í átaksverkefni með þetta fyrir augum og í lok árs höfðu 136 hættur eða næstum-því slys verið skráð í tilkynningagrunn fyrirtækisins. Þetta má teljast afar góður árangur enda tugföldun frá árinu áður. Árið 2017 er því ár atvikaskráningar, sem neðangreint graf sýnir glögglega. Þetta átak og afleiðingarnar ríma vel við aukna áherslu fyrirtækisins á þennan mikilvæga málaflokk.

Slys, atvik og hættur 2014-2017 (HS Orka)

Slys, atvik og hættur 2014-2017 (Verktakar)

Ofangreindar skráningar eru eitt mikilvægasta tól fyrirtækisins til að auka öryggi á vinnustað. Fyrir utan að koma auga á hættur sem gætu orðið að atvikum, hvetur kerfið starfsmenn til að taka þátt í öryggisstjórnunarferlinu og að sama skapi verður vitundarvakning um hættur í umhverfinu og hvernig best er að minnka þær. Jafnframt þarf skráningarferlið að vera eins einfalt og aðgengilegt og unnt er, og að því var unnið samhliða ofangreindu átaksverkefni.

Slysatíðni HS Orku

Ekki er hægt að sjá mynstur í slysatíðni síðustu ára, og slysatíðni fyrirtækisins jókst milli ára, enda átti sér stað eitt fjarveruslys, en ekkert árið 2016. Fyrrgreindar aðgerðir eru hluti af forvörnum sem ætlað er að ná slysatíðninni niður í 0 og halda henni þar.