Raforkukaup og raforkusala

Eftirspurn eftir rafmagni hélt áfram að aukast mikið á árinu. Mikill áhugi á uppbyggingu gagnavera á Íslandi leiddi eftirspurnina og eru talsverðar hræringar á þeim markaði. Sala til gagnavera jókst á árinu um 38% og er útlit fyrir að aukningin verði umtalsvert meiri á árinu 2018. Áhugi erlendra fjárfesta á því að koma til Íslands og byggja upp gagnaver er mikill. Samkeppni frá öðrum ríkjum Skandinavíu og Norður Ameríku um þessa uppbyggingu er þó mikil og er fyrst og fremst horft til raforkuverðs þegar staðsetningar eru valdar.

Notkun fiskimjölsverksmiðja ríflega tvöfaldaðist frá fyrra ári þrátt fyrir verkfall sjómanna fyrri hluta árs en árið 2016 litaðist nokkuð af olíunotkun á bræðslukatla vegna lágs heimsmarkaðsverðs á olíu. Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja sem hefur staðið yfir síðustu ár er mikið þjóðþrifamál enda eru innlendir endurnýjanlegir orkugjafar nýttir við vinnsluna í stað innfluttrar olíu áður.

Almenn notkun rafmagns hefur auk þess haldið áfram að aukast á milli ára, ekki síst á Suðurnesjum þar sem mikil uppbygging á sér stað um þessar mundir. Mikla aukningu má einnig sjá í fjölmörgum sveitarfélögum á suðvesturhorninu. Gera má ráð fyrir að stöðugur vöxtur verði á almennum markaði á næstu árum enda mikil uppbygging í gangi víða. Þessi aukning í almennri notkun er birtingarmynd mikils hagvaxtarskeiðs með gríðarlegri uppbyggingu í ferðamannaiðnaðinum og nýju húsnæði.

Álverð hefur á síðustu misserum þokast upp á við sem hefur jákvæð áhrif á tekjur HS Orku. Þó unnu breytingar á gengi krónunnar gagnvart dollara nokkuð á móti hækkun álverðs og annarri sölu í dollurum.

Framleiðsla á árinu jókst í Reykjanesvirkjun og stefnir í að virkjunin muni keyra nálægt fullu afli þegar líður á árið 2018. Auk þess var gefið út nýtt nýtingarleyfi fyrir Svartsengisvirkjun sem þýðir að hægt verður að fullnýta þá möguleika sem eru til staðar á því svæði.

Húsafell
HS Orka kaupir meðal annars rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum í Húsafelli

HS Orka gerði á árinu samninga við þó nokkrar minni vatnsaflsvirkjanir um kaup á rafmagni frá þeim og er nú heildarmagn raforku sem fæst frá litlum vatnsaflsvirkjunum víða um landið komið vel á þriðja tug megavatta. Í farvatninu er meiri uppbygging og stefnir HS Orka að því að vinna áfram með þessum aðilum til að auka orkuframboð sitt. Raforkuframleiðsla vatnsaflsvirkjanna var almennt góð á árinu og mikil framleiðsla hjá minni virkjunum. Auk þess er vatnsstaða í virkjunum Landsvirkjunar mjög góð sem er mikilvægt fyrir allan raforkumarkaðinn á Íslandi.

Raforkuverð á heildsölumarkaði hækkaði enn í verði á árinu sem gerir fyrirtækjum á smásölumarkaði erfiðara um vik. Á sama tíma er mikil samkeppni innanlands um stærri viðskiptavini eins og gagnaver.Rekstur orkuvera gekk að mestu leiti vel á árinu. Farið var í 5 ára viðhaldsstopp á vél 2 á Reykjanesi sem gekk vel ásamt að farið var í árlegt viðhaldsstopp á öðrum vélum.