Lokið var við tengingu djúprar háhitaholu í Svartsengi, holu SV-26, sem er boruð frá borplani suðvestan við framleiðsluver CRI og til suðausturs. Botn holunnar er því undir Sýlingafelli austan Grindavíkurvegar. Holan gefur 3-4 MW í raforku, auk þess að vera nýtt til varmaframleiðslu.
Hafinn var undirbúningur að tengingu holu RN-29 á Reykjanesi. Holan er u.þ.b. 3.000 m djúp og boruð í svokallaðri Stamparein, gosrein sem síðast gaus snemma á 13. öld. Hönnun og innkaupum var lokið á árinu og var verkið síðan boðið út í janúar 2018.
Á Reykjanesi var boruð ný djúp viðhaldshola, hola RN-35. Það er eðli borholna að framleiðsla þeirra minnkar með tímanum og á það ekki síst við tæplega 300°C heitan fullsaltan vökva eins á Reykjanesi. Svo heitur jarðsjór ber með sér verulegt magn steinefna sem falla út sem fast efni í borholum og mannvirkjum á yfirborði. Því er nauðsynlegt að bora viðhaldsholu á nokkurra ára festi. RN-35 er stefnuboruð til suðvesturs í átt að litla Vatnsfelli. Holan er fóðruð með stálfóðringu niður á 1.300 m og er 2.800 m djúp. Holan hefur reynst mjög gjöful eða um og yfir 8 MW í raforku.
Í desember var hafist handa við borun rannsóknarholu í Stamparein sunnan við fiskeldi Stolt Seafarm. Holan RN-36 verður stefnuboruð í allt að 2.500 m dýpi. Umfangsmiklar rannsóknir sýna að hár hiti nálægt 300°C er í Stamparein, en holunni er einkum ætlað að sannreyna hvort jarðlögin á þessu dýpi séu lek. Ferilefnaprófanir sem HS Orka hefur framkvæmt um nokkurt skeið hafa sýnt fram á að óveruleg tenging er milli Stampareinar og meginvinnslusvæðisins á Reykjanesi og verður því vinnsla jarðsjávar úr Stamparein hrein viðbót við jarðhitavinnsluna á Reykjanesi.
Á árinu var lokið við rannsóknir og þróun aðferða vegna 30 MW lágþrýstivirkjunar á Reykjanesi sem bæta mun verulega nýtingu Reykjanesvirkjunar. Þróaðar hafa verið aðferðir til lágþrýstisuðu og hreinsun á þeim sjó eftir suðu til niðurdælingar. Aðferðirnar eru nú að fullu kortlagðar og verkefnið tilbúið til hönnunar og síðan framkvæmdar.
HS Orka tekur þátt í og styður allnokkur rannsóknarverkefni á sviði jarðhitavinnslu.
Flest eru verkefnin alþjóðleg, mörg eiga rætur sínar að rekja til djúpborunarverkefnisins IDDP og sum þeirra eru einnig studd af Evrópusambandinu. Orkufyrirtækin hafa staðið að sameiginlegum rannsóknum og þróun á aðferðum til nýtingar og förgunar brennisteinsvetnis. Image er alþjóðlegt verkefni þar sem þróaðar hafa verið aðferðir við að samþætta jarðhitaþekkingaröflun sem byggir á nýjustu vísinda- og tækniaðferðum. Hotcase er alþjóðlegt verkefni með það að markmiði að þróa stálfóðringar og fóðringaaðferðir fyrir hávermiborholur, en prófuð verða m.a. ný efni, húðun stáls gegn tæringu og hátæknisteypuaðferðir.