Auðlindir

Það er markmið HS Orku að umgangast og nýta þær auðlindir sem fyrirtækinu hefur verið treyst fyrir á sjálfbæran hátt og hámarka nýtingu jarðhitavökvans sem unninn er úr jarðhitakerfunum með fjölnýtingu. Við berum virðingu fyrir auðlindunum og stuðlum að rannsóknum, þróun og skilvirku verklagi til að auka þekkingu og skilning á jarðvísindum.

Við fylgjumst með ástandi auðlinda með umfangsmikilli vöktun. Vöktunaráætlun tekur mið af mikilvægum umhverfisþáttum á hverju svæði og getur verið breytileg milli svæða og nýtingar. Til dæmis er náið fylgst með efnainnihaldi neysluvatns og jarðhitavökva, og fylgst er með ýmsum eðlisfræðilegum þáttum með símælingu, s.s. hitastigi, þrýstingi, leiðni og grunnvatnshæð á völdum stöðum. Magn þess vökva sem tekinn er upp er skráð og álag á auðlindir metið út frá niðurstöðum vöktunar og brugðist við sé þörf á.

Jarðhitaforðinn

HS Orka á og rekur tvær jarðhitavirkjanir á Suðurnesjum, Reykjanesvirkjun og Svartsengi. Virkjun jarðhita á Suðurnesjum hefur frá upphafi verið áskorun vegna mikillar seltu, útfellinga og málmtæringar. Með lausnamiðaðri hugsun, rannsóknum og þróun hefur starfsfólk tryggt farsæla nýtingu auðlinda undanfarin 40 ár.

Jarðhitavinnsla í Svartsengi hófst árið 1977 þegar heitu vatni var hleypt á fyrstu húsin í Grindavík, en raforkuframleiðsla hófst ári síðar þegar gangsettur var fyrsti hverfillinn með uppsett afl 1 MW.

Orkuframleiðsla í Svartsengi hefur verið byggð upp í áföngum til ársins 2008. Nýting byggir á vinnslu 240°C jarðhitavökva og er aflgeta orkuversins í dag 75 MWe og 190 MWth.

Raforkuframleiðsla á Reykjanesi hófst í maí 2006, með tveimur 50 MWe gufuhverflum. Nýtingin á Reykjanesi byggir á vinnslu 270-300°C jarðhitavökva. Vinnslunni á Reykjanesi hafa fylgt ýmsar áskoranir sem tengjast háu hitastigi, hárri seltu og miklu magni af uppleystum steinefnum. Útfellingar í borholum og lögnum sem og tæringarálag á búnað kalla á aukið eftirlit og viðhald. Umfangsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar á auðlindinni undanfarin ár í leit að heppilegu niðurdælingarsvæði. Stórt skref var tekið á síðasta ári sem fól í sér breytta vinnslustefnu byggða á niðurstöðum rannsókna og mælinga. Niðurdæling var færð fjær meginvinnslusvæðinu og símælingu á hitastigi og þrýstingi komið fyrir í hjarta auðlindarinnar til að fylgjast með og tryggja jafnvægi milli vinnslu og niðurdælingar. Vinnsla á svæðinu er nú komin í jafnvægi eftir stórar áskoranir og áföll á fyrri árum.

Ferskvatnsvinnsla

Í Lágum í Svartsengi er unnið ferskt grunnvatn úr hraunlögum til dreifingar á Suðurnesjum sem heitt og kalt neysluvatn. Ferskvatnsvinnsla var hefðbundin á síðasta ári vel er fylgst með álagi á auðlindina enda ferskvatnsauðlindir okkar dýrmætustu auðlindir.Hér að neðan eru helstu kennitölur frá síðastliðnu rekstrarári.

Jarðhitavinnsla

Ferskvatnsvinnsla til dreifingar á heitu og köldu vatni